Pabbi 86 ára í dag.
Hérna er hann við bátinn sinn á Gíslholtsvatni. Hann elskar þennan bústað og að veiða. Það eru ansi margir silungar búnir að lenda í netinu síðustu næstum 20 ár held ég. Bústaðurinn var byggður í byrjun 2000 ef ég man rétt. Kannski 2001.
Pabbi hefur verið alveg ótrúlega duglegur í gegnum tíðina og ekki hefur hann slakað síðan hann fór á eftirlaun. Fjöldi ferðalaga, skíðaferðir, gönguferðir og sólarlandaferðir. Svo er hann ennþá að vinna í "draslinu" eins og hann kallar það.
Ég á ótrúlega margar minningar með honum pabba og á milli okkar hefur verið sérstaklega gott samband. Alveg frá því ég var smápatti fékk ég að koma með i vinnuna á Vellinum. Þetta var ótrúleg upplifun, eiginlega eins og að koma í annað land. Við brunuðum oft niður 11-29 brautina eða 02-20 og það var geðveikt. Svo var matur í hádeginu. Þar var borðað af stálbökkum, sem pabbi grínaðist með að fangarnir í Sing Sing hefðu neitað að nota. Þá var upplagt að ÍAV notaði bakkana.
Seinna urðum við vinnufélagar og unnum að mörgum stórum verkefnum á Vellinum. Pabbi var nú ekki verkfræðimenntaður, heldur vélamaður með skírteinið fullt, hann hafði unnið sig upp hjá ÍAV og var yfir öllum jarðvegsframkvæmdum á Vellinum og þá auðvitað stóð hæst á hverju sumri að malbika flugbrautir og aðkeyrslur og jú alla vegi á Vellinum. Sumarfrí voru svo tekin þegar "seasonið" var búið, sem sagt oftast í september. Ég var nokkrum sinnum settur í pössun hjá systkinum mömmu eða pabba þegar þau skruppu í sólarferð eða borgarferð. Alltaf komu þau heim með fullar töskur af gjöfum.
Líklega minnistæðast var þegar þau fóru til Acapulco 1980. Það var í nóvember og ég var sendur á Siglufjörð. Þar var ég í nokkrar vikur í skóla á Sigló og var hjá Stínu frænku. Skemmtilegur mánuður.
Ég verð svo heppinn að kíkja örstutt á hann í byrjun mars. Hlakka mikið til.
"God søndag til jer" eins og danskurinn segir.
Arnar Thor
Ummæli
Til hamingju með gamla, segi ég aftur. Að hann eigi stutt eftir í nírætt boðar ekki gott fyrir okkur félagana, sem erum nær sextugu en fertugu.